Fordómalaus knattspyrna fyrir alla ALLTAF

Kæra Leiknisfólk,

 

Síðastliðinn föstudag mátti leikmaður meistaraflokks félagsins þola fordóma í sinn garð. Fjallað hefur verið um málið í fjölmiðlum og þriðjudaginn 19. mars tók aganefnd Knattspyrnusambands Íslands málið fyrir. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikmaður má þola fordóma á okkar litla landi, hvort sem er meðal okkar iðkenda eða iðkenda í öðrum félögum.

 

Stjórn félagsins vill koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri í ljósi þeirrar umfjöllunar sem hefur átt sér stað og í ljósi niðurstöðu aganefndar KSÍ.

 

Fordómar eru sérstakt fyrirbrigði og í raun andstæða gagnrýninnar hugsunar. Fordómar í garð annarra, hvort sem það er vegna kynþáttar, þjóðernis, stéttar, andlegra veikinda, trúarbragða eða hvaða nafni sem það nefnist, munu aldrei líðast innan knattspyrnufélagsins Leiknis.

 

Við erum öll mismunandi, með mismunandi skoðanir, af mismunandi uppruna, og ölumst upp við mismunandi aðstæður. Við erum stolt af því að innan okkar litla knattspyrnufélags er að finna krakka, unglinga og fullorðna einstaklinga sem eiga rætur að rekja til yfir 25 mismunandi landa. Flestir fæddir og uppaldir á Íslandi, Leiknismenn, Íslendingar, með mismunandi húðlit og iðka mismunandi trú. Margir af okkar iðkendum hafa því miður þurft að þola fordóma vegna þessa í gegnum tíðina, sem er í raun ótrúlegt.

 

Við leggjum aldrei blessun okkar yfir slíka háttsemi, þrátt fyrir að knattspyrnusamband Íslands hafi gert það með ákvörðun sinni á fundi aganefndar. Það er algjörlega óskiljanlegt að knattspyrnusambandið líti framhjá 16. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál í úrskurði sínum og samþykki þar með fordóma innan vallarinns. Fordómum verður ekki útrýmt ef skilaboðin eru þessi.

 

Undanfarin misseri hafa leikmenn um allan heim stigið fram og talað opinskátt um baráttu sína við andleg veikindi. Tilgangurinn er að útrýma fordómum fyrir andlegum veikindum og opna umræðuna serstaklega fyrir unga menn. Við teljum einfaldlega að sú barátta sem unnin hefur verið í að útrýma fordómum gagnvart þeim veikindum sé með þessum úrskurði gefinn puttinn.

 

Það virðist vera lítið mál að sekta félögin þegar kemur að hátterni stuðningsmanna sem jafnframt er yfirleitt bannað að mæta á íþróttaviðburði félagsins um ókomna tíð. En þegar kemur að fordómum inni á vellinum virðist aðra sögu að segja.

 

Við vonum að önnur knattspyrnufélög innan hreyfingarinnar taki ekki ákvörðun nefndarinnar til fyrirmyndar og haldi áfram að berjast fyrir fordómalausri knattspyrnu.

Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér.

 

Látum frekar verkin tala.

Stjórn knattspyrnufélags Leiknis.

#Fordómalausknattspyrna

Höfundur:

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *

*
*