Fyndinn föstudagur: Þegar KB mætti KR

Knattspyrnufélag Breiðholts eða KB eins og það er jafnan kallað var stofnað 17 janúar 2007, liðið er svokallað varalið Leiknis og hafa margir af núverandi leikmönnum Leiknis stigið sín fyrstu skref í meistaraflokki með liðinu.
Árið 2008 í 32-liða úrslitum Visa-Bikarsins dróst KB gegn stórliði KR en frétt um dráttin má nálgast hér en þarna má meðal annars sjá kostulegt viðtal við Þórð Einarsson.

Þórður hélt áfram að hrista búrið hjá KR-ingum og lét meðal annars þessi ummæli falla:
,,Það mæta allir þegar að KB slær út KR í bikarnum, það verður troðfullur völlur. Þeir verða viðbúnir því að detta út úr bikarnum KR-ingar. Við KB-menn ætlum að verða bikarmeistarar í ár, við þurfum að vinna KR á leiðinni og það gerist á morgun.”

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/news/24-06-2008/#ixzz4Njbp6wn8 Hér má sjá fleiri skemmtileg ummæli sem varða leikin

Mikil eftirvænting var fyrir leiknum enda líklega stærsti leikur í sögu KB og voru 380 manns mætt í Frostaskjólið til að fylgjast með leiknum. Logi Ólafsson þáverandi þjálfari KR virtist ekki vanmeta KB og stillti hann upp sterku liði sem innihélt meðal annars Guðjón Baldvinsson, Óskar Örn Hauksson og Björgólf Takefusa. KB stillti einnig upp gríðarlega sterku lið en í byrjunarliði KB má nefna menn eins og Óttar Bjarna Guðmundsson,Ólaf Hrannar Kristjánsson,Þórð Einarsson og Gunnar Jarl Jónsson.

Það var ljóst jafnvel áður en leikurinn hófst að eina markmið KB í leiknum væri að halda marki sínu hreinu og var sóknarhelmingur KR-inga ansi þéttsetinn í leiknum. Þó svo að að leikurinn hafi aðallega farið fram á valarhelmingi KB gerðu okkar menn tilkall til vítaspyrnu í leiknum og átti Atli Þór Sigurðsson skot í slá en það skot kom þó frá eigin vallarhelmingi.  Ragnar Daði Jóhannson markvörður KB virstist soga til sín alla þá krafta sem hann og Sinalco treyjan hans áttu til og varði hann eins og berserkur allan leikin og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. KB tókst þó aðeins að halda marki sínu hreinu í 50 mínútur en þá skoraði markavélin Björgólfur Takefusa og staðan orðin 1-0. KB menn voru þó ekki af baki dottnir og börðust eins og ljón allt til loka en tókst ekki að skora.

Kjartan Örn Þórðarsson leikmaður KB var ekki sáttur í leikslok og gaf dómarnum orð í eyra og tjáði honum að KB hefði átt að fá vítaspyrnu það var þó orðið of seint að breyta dómnum svo ekkert kom upp úr því. KB-menn voru þó sáttir með sína spilamennsku enda höfðu þeir gefið KR-ingum hörkuleik og var Vesturbæjar stórveldið farið að tefja undir lok leiks að ótta undan skeinuhættum Breiðhyltingum.

Þessi leikur hverfur seint úr minni þeirra vallargesta sem mættu á þennan stórleik og við vonum svo sannarlega KB-menn gefi okkur annan svona stórleik á 10 ára afmælis ári félagsins árið 2017.

Höfundur:

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *

*
*