Leikið gegn Njarðvík á aðalvellinum á föstudag

Leiknir tekur á móti Njarðvík á föstudag í 3. umferð Inkasso-deildarinnar. Leikurinn verður klukkan 19:15 á aðalvellinum okkar kæra.

Eftir að hafa byrjað Íslandsmótið á gervigrasinu þá færum við okkur á aðalvöllinn á föstudag, hann er klár í slaginn!

LEIKNISLJÓNAUPPHITUN verður að sjálfsögðu á sínum stað. Gísli Þorkelsson opnar salinn klukkan 17 og er von á góðum gestum. Ingólfur Sigurðsson tekur út leikbann gegn Njarðvík en fær sér kaffibolla með stuðningsmönnum fyrir leik og lofar góðum fimmaurum.

Njarðvíkingar eru með hörkulið eins og við fengum svo sannarlega að kynnast í fyrra. Báðir leikir okkar gegn þeim töpuðust svo okkar lið á harma að hefna! Njarðvík er með þrjú stig rétt eins og við, liðið vann öflugan útisigur gegn Þrótti í 1. umferð.

Öðlingsdrengurinn Stefán Birgir Jóhannesson leikur með Njarðvík en hann var valinn besti leikmaður 1. umferðarinnar. Stefán lék þrettán leiki með Leikni í 1. deildinni árið 2013 og skoraði tvö mörk.

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *

*
*