LEIKNIR UPP Í EFSTU DEILD

Í lok október tilkynnti KSÍ að keppni á Íslandsmótinu í fótbolta væri lokið en ekki var hægt að klára allar umferðir vegna Covid-19 faraldursins. Sérstök reglugerð tók þá gildi og endaði Leiknir í Breiðholti í öðru sæti Lengjudeildarinnar, 1. deildar.

Það er því ljóst að Leiknir mun leika í Pepsi Max-deildinni, efstu deild karla, á næsta tímabili. Frábær árangur á sérstöku tímabili en liðið er gríðarlega vel að þessu komið. Leiknisliðið spilaði stórskemmtilegan fótbolta og sýndi mikinn stöðugleika í gegnum tímabilið. Liðsheildin var öflug og margir uppaldir Breiðhyltingar létu ljós sitt skína ásamt aðkomumönnum sem eru orðnir glerharðir Leiknismenn eftir dvöl þeirra hjá félaginu.

Leiknismenn skoruðu 50 mörk en aðeins Keflavík skoraði fleiri. Varnarlega var liðið feykilega vel skipulagt og fékk á sig 22 mörk á tímabilinu, fæst mörk allra liða deildarinnar.

Mikill hugur er í Leikni að gera vel í deild þeirra bestu á næsta ári og er mikið gleðiefni að geta aftur boðið upp á leiki í efstu deild fótboltans í Breiðholtinu. Það er skemmtilegt og spennandi ár framundan.

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *

*
*