Uppskeruhátíð Leiknis lokið

Yngri flokkar Leiknis héldu sína árlegu uppskeruhátíð þann 27. september sl. Met var sett í mætingu og var hátíðarsalur Hólabrekkuskóla fullur út úr dyrum. Feldís Lilja Óskarsdóttir formaður félagsins opnaði hátíðina með stuttu ávarpi og síðan voru veittar viðurkenningar í hverjum flokki eins og ávallt. Viðurkenningar eru veittar fyrir góða ástundun og framfarir og í eldri flokkum er efnilegasti leikmaðurinn valinn. Allir iðkendur fengu einnig mynd af sér með sínum flokki en undanfarin tvö ár hafa verið teknar hópmyndir af öllum flokkum og hefur það mælst vel fyrir.

Ingó Veðurguð skemmti gestum með söng og glensi og mátti glögglega sjá hversu vel yngsta fólkið kunni að meta hans framlag. Hápunktur hátíðarinnar var þó veisluborðið sem foreldrar höfðu hlaðið kræsingum og var hið veglegasta.

Eins og allir vita stóð meistaraflokkur Leiknis sig með eindæmum vel á síðasta tímabili sem skilaði sér með sæti í úrvalsdeildinni. Það er án efa mikil hvatning fyrir okkar yngri iðkendur að fyrirmyndirnar skuli ná slíkum árangri. Og yngri flokkarnir stóðu sig ekki síður vel og voru félaginu til sóma á þeim mótum sem sótt voru síðasta sumar. 7. flokkur og yngri tók þátt í Norðurálsmótinu á Akranesi og 6. flokkur fór til Vestmannaeyja. 5. flokkur fór á N1 mótið á Akureyri og 3. og 4. flokkur lögðu land undir fót og tóku þátt í Gothia Cup í Svíþjóð. Einnig voru spilaðir ótal leikir í Reykjavíkur- og Íslandsmóti yfir tímabilið og keppt í ýmsum minni mótum.

Á síðasta tímabili var Leiknir í samstarfi við ÍR um 3. flokk karla. Verður áfram spilað undir sameiginlegum merkjum félaganna í þessum flokki á nýhöfnu tímabili. Það sama á við um rekstur kvennaknattspyrnu en samstarf hefur verið með félögunum tveimur í yngri flokkum kvenna síðastliðin þrjú ár. Áframhald verður á því samstarfi.

Á uppskeruhátíðinni fögnuðum við góðri frammistöðu. Ekki bara sætustu sigrunum heldur líka metnaði og góðum liðsanda. Við hvetjum iðkendur til að stunda boltann vel og minnum á að það er æfingin sem skapar meistarann.

Hér má sjá myndaveislu frá hátíðinni

Höfundur:

Leiknir.com

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *

*
*