Freyr Alexandersson í viðtali

Annar af þjálfurum meistaraflokks Leiknis var tekinn tali á nýju ári, rætt var um fyrsta þjálfunarár hans, samstarfið við Davíð, kvennalandsliðið og margt margt fleira.

Nafn: Freyr Alexandersson
Fæddur: 18.nóv 1982
Stjörnumerki: Sporðdreki
Gælunöfn: Freysi, Jeppi, 4×4 og Jeppi opstrup

Topp 3 frægustu í símaskránni þinni?
Ég veit ekki alveg hvernig ég flokka frægð manna, en þessa þekkja flestir. Get þó ekki sagt að ég sé mikið að bjalla á þessa félaga.

Geir Þorsteins, Lars Lagerback og Ólafur Stefánsson

Strengdir þú einhver áramótaheit fyrir 2014?
Ég setti mér nokkur markmið fyrir 2014. Ýmist tengt fótboltanum, sjálfum mér, fjölskyldunni og vinum. En auðvitað tengist þetta allt.

Mynd: Fótbolti.net

Varstu sáttur með ykkar fyrsta ár með Leiknisliðið?
Ef ég tek saman allt árið þá var ég sáttur. Margir sigrar sem unnust innan vallar og utan. Við fórum þangað með liðið sem við ætluðum okkur í upphafi en það voru tækifæri til að fara ennþá lengra og það tækifæri áttum við að nýta okkur betur. En grunnmarkmiðin náðust hjá okkur. Liðið er betur í stakk búið núna til að takast á við 1.deildina á réttum enda heldur en fyrir ári síðan. Leikmenn eru í betra jafnvægi andlega og líkamlega. Samstarf okkar Davíðs þroskaðist hratt og örugglega og er í dag mjög sterkt. Virkilega skemmtilegt að vinna með góðu fólki og við hjá Leikni eigum mikið af góðu og duglegu fólki sem elskar félagið sitt.

Voru einhverjar sérstakar áherslubreytingar sem þið þjálfarar lögðuð upp með þegar þið tókuð við Leiknisliðinu á haustmánuðum 2012?
Veit ekki hvort ég sé dómbær á áherslubreytingar en klárlega lögðum við af stað með okkar áherslur. Við lögðum mikla áherslu og vinnu á það allt síðasta ár að endurheimta gildi félagsins, finna út úr því fyrir hvað við viljum standa og fara svo eftir því. Lögðum mikla áherslu á að leikmenn temji sér faglegar vinnuvenjur og nálgist allar æfingar og öll verkefni af fagmennsku. Þjálfræðilega vildum við koma liðinu í mjög gott líkamlegt ástand og miðuðum við okkur þá við topp lið á íslandi og á norðurlöndunum. Viðmiðið var ekki huglægt mat heldur unnum við út frá staðreyndum. Þetta gekk vel og liðið er miklu betur á sig komið líkamlega núna en fyrir ári síðan.

Hvaða áherslubreytingar fannst þér nást best í gegn á þessu fyrsta starfsári ykkar?
Það að endurheimta grunngildin, gleðina og samkenndina sem á að einkenna félagið okkar. Einnig áherslan sem við lögðum á fagleg vinnubrögð og góða líkamsvitund.

Hvað finnst þér þurfa að leggja áherslu á fyrir komandi tímabil?
Það er margt sem við þurfum að huga að. Halda áfram að vinna með það sem við lögðum af stað með í upphafi. Við þurfum einnig að bæta leikfræði liðsins meira þetta árið. Okkur finnst mikilvægt að ná betri tökum á fleiri en einu varnarafbrigði og fleiri en einu sóknarafbrigði.

Telur þú að Leiknir sem félag sé í stakk búið að takast á við Pepsi-deildina?
Það eru svo margir þættir sem þurfa að vera í lagi þegar við förum upp um deild. Eins og staðan er í dag þá stöndumst við kröfur pepsi deildarinnar á margan hátt. En það er alveg ljóst að við þurfum að gera margt betur. Ég trúi því að innviðir félagsins séu það sterkir að við getum vel tekist á við verkefnið pepsi deild. En við þurfum að vinna betur úr því sem við höfum og virkja alla þá krafta sem við höfum, það höfum við ekki gert nægilega vel ef til vill.

Var eitthvað sem kom þér á óvart á liðnu ári?
Ég þekkti félagið auðvitað mjög vel þegar ég kom inn í þetta þannig að það var ekki margt sem kom mér mikið á óvart.
Miðað við ástandið á hópnum þegar við tókum við liðinu í Okt 2012 þá verð ég að viðurkenna það að frammistaða leikmanna í byrjun árs 2013 og hungur þeirra í að gera vel til þess að laga það sem illa hefur farið eftir 2010 tímabilið kom mér skemmtilega á óvart, þetta eru alvöru menn sem klæðast Leiknisbúningnum.

Spænskur leikmaður var til reynslu hjá félaginu nýverið – hvernig leist þér persónulega á hann?
Mér leist vel á hann, tæknilega góður, með gott auga fyrir spili og gott skot. Hann heldur skipulagi vel og hefur spilað á háu leveli auk þess var hann sjálfstæður og vel gefinn. Fyrir það budget sem við erum tilbúnir að setja í leikmann frá öðru landi þá hefur hann margt fram að færa. Hvort hann verði leikmaður Leiknis er hins vegar algjörlega óljóst.

Mynd: Fótbolti.net

Fyrirmynd í þjálfun?
Ég á mér ekki beint fyrirmynd í þjálfun en hef reynt að læra af þeim sem ég hef unnið með og í kringum.  Gæi og Maggi Einars voru mínir fyrstu áhrifavaldar. Beta, Óskar Bjarni, Kjartan Orri og Kristján Guðmundsson gerðu mikið fyrir mig á tíma mínum hjá Val. Ég var hjá Sigga Jóns í tvær vikur þegar hann var þjálfari Djurgarden og það reyndist mér vel. Brynjar Karl körfuboltaþjálfari og sideline nörd stuðar mig reglulega. Davíð Snorri hefur haft góð áhrif á mig og nú síðast Heimir Hallgríms og Lars Lagerback þannig að það er ýmislegt sem ég horfi til. Ég var líka svo heppinn að geta tekið það besta frá janusi Guðlaugssyni og svo hefur maður lesið endalaust frá mönnum út í heimi og þá kemur upp í huga minn maður sem heitir Anson Dorrance en ég las mikið eftir hann þegar ég var að byrja að þjálfa.

Fyrsti leikurinn með Leikni?
Ég er ekki  viss enda með slæmt minni en ég held að fyrsti mótsleikur í meistaraflokki hafi verið gegn Val 0-3 tap í Reykjavíkurmóti árið 2001

Eftirminnilegasta stund þín í Leiknisbúningnum
Sennilega 25.ágúst 2005 þegar við unnum Stjörnuna á stjörnuvelli 1-2 og tryggðum okkur 1.deildarsæti. Markmiðinu náð með hópi manna sem mér þykir gríðarlega vænt um.

Mestu vonbrigði þín í Leiknisbúningnum
6.sept 2002 Leiknir-Léttir. Fall staðreynd. Var reyndar í leikbanni í leiknum en engu að síður ein versta stund lífs míns.

Leiknir hefur í gegnum tíðina ekki náð að klekja út marga leikmenn sem hafa náð alla leið, þ.e í Pepsi-deildina eða jafnvel lengra og útfyrir landssteinana – samanburður við önnur félög sýnir að þarna er stór munur á. Hvað telur þú að þyrfti að breytast til að Leiknir gæti skilað af sér fleiri „toppleikmönnum“ úr yngri flokka starfi sínu. Þetta er góð pæling, ég held að það sé fyrst og fremst tengt afreksþjálfun. Það er eitthvað sem hefur verið unnið markvist að síðustu ár og við munum uppskera af þeirri vinnu á næstu árum. Leiknir hefur fyrst og fremst verið að einbeita sér að því að búa til meistaraflokks leikmenn fyrir félagið. Það hefur gengið vel og fá félög á landinu sem eiga eins marga heimamenn í sínum meistaraflokki eins og Leiknir. Sú vinna heldur áfram á sama tíma og við reynum að huga að því að taka næsta skref í okkar þjálfun.

Þú ert að tekinn við kvennalandsliðinu af sigursælasta landsliðsþjálfara þess frá upphafi – hugsaðir þú þig einhvern tímann tvisvar um varðandi þá ákvörðun?
Ég ígrundaði þessa ákvörðun vel en ekki út frá árangri Sigga Ragga og liðsins á síðstu árum. Það er alveg klárt að verkefnið er krefjandi en það er á sama tíma gríðarlega spennandi og í því felast mörg tækifæri.

Verður erfiðara fyrir smáþjóðir eins og okkur að ná sambærilegum árangri og náðst hefur undanfarin misseri á komandi árum?
Já það eru allar líkur á því að það verði erfiðara með árunum, stórar þjóðir eru að setja mikið í vinnu sína með kvennalandslið sín og við eigum frekar erfitt með að keppa við það. Stórar þjóðir sem hafa látið lítið fyrir sér fara í kvenna knattspyrnu munu láta okkur svitna en það þíðir ekkert að hræðast það og væla, við verðum bara gera betur og gera eins vel úr því sem við eigum.

 Fyrirliði landsliðsins, MLV9 er farinn í barnseignaleyfi – er ákveðið hver tekur við bandinu?
Já það er klárt, Sara Björk Gunnarsdóttir var í hlutverki varafyrirliða. Sara Björk tekur við bandinu og Margrét mun standa þétt á bak við hana.

Mynd: Brandur

Hverjar telur þú helstu ástæður þess að kvennabolti hérlendis hefur náð þeim hæðum sem raun ber vitni um?
Góð þjálfun í yngri flokkum, Íslensk félagslið voru mjög framarlega í umgjörð sinni og þjálfun í meistaraflokki og mörg hver á undan stórum félögum í evrópu.
Einnig kom upp mjög góð kynslóð leikmanna sem hafa haldið áfram lengur en margir forverar þeirra, þær hafa gert mjög góða hluti fyrir Íslenskan kvennafótbolta.

Hvað telur þú að geti orðið til þess efla yngri flokka starf kvenna enn frekar og þannig mögulega ná enn lengra?
Halda áfram að vera með vel menntaða þjálfara og góða umgjörð í kvennaflokkum. Leikmenn sem skara fram úr þurfa verkefni við hæfi og þjálfun sem þroskar þær rétt. Leikmenn sem skara fram úr á barna og unglingsárum eiga að spila og æfa sem mest með strákum.

Kom aldrei til greina að ráða Gísla Þorkels sem liðsstjóra?
Gísli er í ráðgjafahlutverki, hann gat ekki sinnt hvoru tveggja

Hvar sérðu þig eftir fimm ár í þjálfun ef allt gengur upp?
Fótboltinn er oft á tíðum sjúkur heimur, það er hættulegt að gera langtíma áætlun sem þessa fyrir sjálfan sig. Ég mun vonandi halda áfram að þroskast í rétta átt, læra af góðu fólki. Núna ætla ég bara að njóta þess að takast á við verkefnin sem bíða mín 2014. En ég veit er að ég verð á góðum stað eftir fimm ár.

 Við hér á Leiknir.com þökk Frey fyrir spjallið og óskum honum og Davíð Snorra áframhaldandi lukku í samstarfinu.

 

Höfundur:

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *

*
*