Fara á efnissvæði
IS EN PL

Uppeldisáætlun Leiknis 2017

Markmið barna– og unglingastarfs hjá Íþróttafélaginu Leikni

Íþróttafélagið Leiknir leggur kapp á að finna hverjum og einum iðkanda verkefni við hæfi og skapa þannig umhverfi fyrir börnin þar sem þau eru örvuð á jákvæðan hátt.

Íþróttafélagið Leiknir hefur mótað uppeldisstefnu þar sem bæði er lögð áhersla á ánægju og árangur. Eitt af meginmarkmiðum yngri flokka starfsins er að að kynna knattspyrnu fyrir börnum í hverfinu og skapa með þeim áhuga á íþróttinni og félaginu. Lögð er áhersla á félagsskap, heilbrigðan lífsstíl, jákvæðni, aga og úrvals kennslu.

Lykilmarkmið barna og unglingastarfsins

 • Ala upp knattspyrnumenn fyrir afreksstefnu félagsins.
 • Búa til þjálfara úr þeim leikmönnum sem hafa knattspyrnulegan grunn en skortir þó upp á hæfni til að ná verulega langt í greininni.
 • Búa til stjórnarmenn framtíðarinnar. Með því að hlúa vel að og sýna hverjum einstaklingi virðingu, má efla félagsvitund iðkenda sem skilar sér í stjórnir og ráð síðar meir.
 • Búa til stuðningsmenn og velunnara félagsins. Með jákvæðu andrúmslofti og með því að ta á alla sem jafningja í starfi félagsins eru iðkendur sem ekki ná langt í íþróttinni líklegri til að leggja félaginu lið, t.d. á áhorfendapöllunum.
 • Búa til dómara. Með því að kenna þeim leikmönnum, sem vilja halda áfram í félaginu sínu, knattspyrnulögin má nýta þann mannauð sem felst í iðkendum félagins á fjölbreyttari hátt.
 • Skila af sér betri þjóðfélagsþegnum. Með því að æfa knattspyrnu í hóp styrkjast margir mannlegir þættir svo sem félagsfærni, samskipta- og samstarfshæfni.
 • Íþróttir eru besta forvörn sem völ er á. Félagið vill stuðla að heilbrigðum lífsstíl iðkenda og því að þeir haldist sem lengst í íþróttum.
 • Opna dyr fyrir nýja íbúa hverfisins og þá ekki hvað síst fyrir nýbúa til að mynda félagsleg tengsl við aðra Íslendinga í hverfinu með þátttöku í félagsstarfinu.

Leiðir að markmiðum

 1. Ráða hæfa þjálfara til félagsins (sjá kaflann Þjálfarar).
 2. Hafa aðbúnað og aðstæður til knattspyrnuiðkunar eins góðar og kostur er á hverjum tíma.
 3. Hafa virkt félagsstarf.
 4. Hafa félagshúsið opið öllum félagsmönnum á öllum aldri.
 5. Hlúa að hverjum og einum einstaklingi þannig að allir fái notið sín.
 6. Ná til nýbúa með því að hafa auglýsingaefni og efni á heimasíðu útgefið á nokkrum tungumálum.
 7. Gefa öllum iðkendum nægan spilatíma og í liði sem hæfir þeirra getu.
 8. Bjóða uppá afreksþjálfun / einstaklingsþjálfun (sjá kaflann Afreksstefna).
 9. Bjóða öllum iðkendum frítt á leiki meistaraflokks.
  Hvetja börn til náms.

Unglingaráð Leiknis

Unglingaráð Leiknis hefur með höndum rekstur yngri flokka frá 3. flokki pilta og niður í 8. flokk. Unglingaráð rekur einnig yngstu flokka kvenna og hefur frumkvæði um samstarf um eldri flokka kvenna. 8. flokkur er ætlaður báðum kynjum.

Helstu verkefni unglingaráðs

 • Fjáraflanir iðkenda sem eru mánaðarlega til að standa straum af ferðalögum barnanna á vegum félagsins.
 • Kynningarstarf í samstarfi við framkvæmdarstjóra.
 • Uppskeruhátíð (sjá kaflann Uppskeruhátíð).
 • Breiðholtshlaup.
 • Fjármögnun starfs yngri flokka (sjá kaflann Fjármögnun).
 • Skipun foreldraráða í hverjum flokki og stuðningur við þau.
 • Viðhald faglegs starfs.

Skipulag yngri flokka

Skipulag yngri flokka er í höndum unglingaráðs, sem lítur undir stjórn Leiknis, og framkvæmdarstjóra. Yfirþjálfari ber ábyrgð á framgangi æfinga og keppni.

Unglingaráð leggur áherslu á að sem flestar æfingar fari fram við aðstöðu félagsins, við Austurberg 1.

Starfsreglur unglingaráðs Leiknis

 1. Allir sem eru búnir að greiða æfingagjöld fá rétt til þess að taka þátt í mótum óski þeir þess og skulu fá tækifæri til að spila í þeim leikjum sem settir eru upp í flokknum.
 2. Þjálfarar stjórna alfarið skiptingu í lið (A, B og svo framvegis) og miðast liðskipan fyrst og fremst við getu.
 3. Þjálfarar skulu skila inn æfingatöflum til framkvæmdastjóra fyrir hvert tímabil til uppröðunnar á völlum og húsum.
 4. Þjálfarar og annað starfsfólk skulu leggja mikla áherslu á að iðkendur beri virðingu fyrir félaginu, aðstöðu og aðbúnaði. Einnig að tileinka iðkendum virðingu fyrir starfsfólki og öðrum iðkendum.
 5. Allir iðkendur í keppni á vegum félagsins skulu keppa í Leiknisbúningi, stuttbuxum og sokkum. Iðkendur skulu eiga sína keppnistreyju upp í 3.flokk.
 6. Leggja skal áherslu á mikilvægi heilbrigðs lífernis við iðkendur, svo sem mataræði og svefn.
 7. Færustu leikmönnum hvers flokks býðst tækifæri til að æfa og keppa að hluta til eða öllu leiti með næsta flokki fyrir ofan til að örva og bjóða verkefni við hæfi. Þjálfarar geta tekið þessa ákvörðun með yfirþjálfara.
 8. Þjálfarar skulu ávallt horfa í kennsluþáttinn fram yfir sigra. En um leið reyna að sigra sé þess kostur innan þess ramma sem knattspyrnustefnan býður.
 9. Þeir sem starfa fyrir félagið skulu sýna félaginu og stjórn þess á hverjum tíma virðingu og gæta þess að tala jákvætt um félagið.Þeir sem merktir eru félaginu skulu í hvívetna vera félaginu til sóma innan vallar sem utan.

Fjármögnun

Eins og segir í kaflanum um unglingaráð ber það ábyrgð á rekstri allra yngri flokka félagsins. Reksturinn er aðskilinn rekstri meistaraflokks og allar tekjur sem Íþróttafélagið Leiknir hefur af starfsemi yngri flokkanna ganga til unglingaráðs.

Helstu rekstartekjur unglingaráðs Leiknis eru:

 • Æfingagjöld
 • KSÍ Styrkur
 • Styrkir frá fyrirtækjum sem sérstaklega eru ætlaðir í
 • yngri flokka starfið.
 • Fjáraflanir

Uppeldisáætlunin

Uppeldisáætlun Leiknis

Fólk á öllum aldri mætist í félagsstarfi íþróttafélagsins og hefur skilningur og áhugi þeirra á íþróttum og gildi íþróttastarfs aukist mjög á undanförnum árum. Það er þó langur vegur frá leiknisljóðum á hliðarlínu að rekstri fyrirtækis eins og íþróttafélög í raun eru. Áhugasamir einstaklingar fara í stjórn félaga án þess að þekkja til starfsemi þeirra. Slíku starfi fylgir jafnvel ábyrgð á eignum að verðmæti hundruði milljóna króna. Í þeim sporum hafa foreldrar barna hjá Íþróttafélaginu Leikni verið, byrjuðu á söng og hvatningu á hliðarlínu og áhuga á æfingum hjá börnum sínum en enduðu sem stjórnarmenn í fyrirtæki sem veltur tugum milljóna á ári, hafa starfsmenn í vinnu og sjá um samskipti við aðra foreldra, iðkendur, þjálfara og stjórn íþróttamála í borginni.

Íþróttafélagið Leiknir var stofnað árið 1973 í bergum, fella- og hólahverfi Reykjavíkur. Félagið er svokallað hverfafélag þar sem starfsemi þess fer öll fram í umræddu hverfi, á gervigrasvelli við Austurberg 1, íþróttahúsinu við Austurberg og í íþróttahúsi Fellaskóla. Íþróttafélagið er aðili að Íþróttasambandi Íslands, Knattspyrnusambandi Íslands og Íþróttabandalagi Reykjavíkur og starfar því samkvæmt lögum ÍSÍ auk íþróttalaga nr. 46 frá 7. apríl 1956. Í félaginu er starfrækt knattspyrnudeild karla allt frá áttunda flokki til og með meistaraflokki. Kvennaflokkur eru frá 6.flokki og uppí 3.flokk . Heildarfjöldi iðkenda og keppenda eru nú um tvöhundruð og fimmtíu . Einnig rekur félagið hliðarfélag, KB sem ætlað er Leiknismönnum á mfl. aldri. Körfuknattleikur er svo leikin af áhugasömum piltum undir nafni félagsins í mfl karla. Karatedeild leiknis var einnig sett á laggirnar árið 2009 og hefur starfsemi sína í íþróttahúsi Fellaskóla.

Megintilgangur félagsins er að gefa ungmennum kost á íþróttaiðkun í göngufæri frá heimili sínu. Íþróttafélagið rekur starfsemi sína í barnmörgu hverfi borgarinnar og er viðurkenndur félagsmótunaraðili í uppvexti barna í hverfinu. Þannig er hlutverk félagsins að efla sem best tengsl barna og ungmenna við það og draga um leið úr líkunum á ávana- og vímuefnaneyslu og afbrotahegðan þeirra. Markmið barna- og unglingastarfs íþróttafélagsins byggja á stefnuyfirlýsingu Knattspyrnusambands Íslands (1995), þar sem segir að barnaþjálfun sé ekki afreksmannaþjálfun heldur grunnþjálfun fjölbreyttra hreyfinga þar sem leikur, leikni og almenn ánægja eiga að skipa stærstan sess í þjálfuninni. Íþróttafélagið leitast því við að bjóða iðkendum upp á góða aðstöðu til þess að stunda knattspyrnu og karate. Jafnframt sem það veitir iðkendum, foreldrum og öðrum áhugamönnum um félagið tækifæri til þess að rjúfa tengsl við daglegt amstur og njóta þess sem íþróttir eins og knattspyrna og Karate hafa upp á að bjóða.

Fyrir þá sem sækja þjálfun til Íþróttafélagsins Leiknis skipir miklu máli að vel og markvisst sé að innri uppbyggingu staðið. Nú starfa um þrjúhundruð manns innan íþróttafélagsins. Af þessum fjölda eru börn og unglingar í miklum meirihluta. Slík starfsemi kallar á öflugt og traust skipulag þar sem markvisst er unnið af eflingu íþróttarinnar sem menningarþáttar í nútíma samfélagi. Starfið byggir á virkni iðkenda á öllum aldri og mótast því nokkuð af hverjum iðkendahópi. Íþróttafélagið leitast þó við að bjóða iðkendum upp á góða aðstöðu til þess að stunda sína íþrótt.

Knattspyrnudeildin er vitaskuld lang stærsta deild félagsins en stýring hennar er tvískipt. Annars vegar svokallað meistaraflokksráð og hins vegar unglingaráð. Meistaraflokksráð sér um rekstur 2. og meistaraflokks félagsins. Kosið er sérstaklega í meistaraflokksráð til eins árs í senn á aðalfundi félagsins. Unglingaráð sér um rekstur og skipulagningar allra yngri flokka félagsins frá 8. til og með 3. flokki. Í unglingaráði eiga sæti foreldra iðkenda, einn frá hverjum flokki að lágmarki fjórir og fer val á þeim fram á foreldrafundum ár hvert. Ennfremur er lögð rík áhersla á að starfrækt séu foreldrafélögum innan íþróttafélagsins. Þannig má tryggja að foreldrar eigi frumkvæði að því að efla íþróttastarfið og hafa áhrif á aðstöðu og aðbúnað félagsins. Frumkvæði foreldra barna í íþróttafélaginu hefur bæði hvetjandi áhrif á þá sem sinna stjórnun og þjálfun, auk þess sem það tryggir bæði samvinnu og samstöðu um áætlanir og úrlausnir á ýmsum sviðum og auðveldar þannig annars bráðskemmtilegt starf félagsins.
Karatedeild er svo rekin sér sem og Körfuknattleiksdeildin en hún er rekin af áhugasömum efra-breiðhyltingum sem vilja stunda körfu undir nafni Leiknis.
Áfram Leiknir!

Viðbragðsáætlun

Viðbragðsáætlun ÍSÍ má finna hér

Viðbragðsáætlun ÍSÍ tekur til barna og starfsmanna/sjálfboðaliða í starfi innan íþróttahreyfingarinnar. Þó svo að hér sé verið að fjalla um málefni barna og unglinga viljum við einfalda málið með því að nota orðið börn yfir einstaklinga á aldrinum 0-18 ára.