Fara á efnissvæði
IS EN PL
Leiknir Dalvikreynir2024
Fréttir | 28.06.2024

Aftur heldur Breiðholtið norður á bóg

Það er hugur í okkur Breiðhyltingum og Leiknisfólki eftir tvo góða sigurleiki í röð. Aftur skal haldið norður að Eyjafirði en í þetta skiptið er það til að mæta sameinuðu liði Dalvíkur og Reynis. Sunnudaginn 30. júní, klukkan 16:00, hefst leikurinn á Dalvíkurvelli. Það getur verið ansi skemmtilegt að heimsækja góða útivelli og þessi völlur og aðstaða er til fyrirmyndar. Leikurinn verður í beinni á YouTube-rás Lengjudeildarinnar en við vonum auðvitað að sem flest Leiknisfólk sjái sér fært að mæta og styðja liðið í því verkefni að sækja þriðja sigurinn í röð.

Leiknir er búið að sækja sex stig í síðustu tveimur leikjum og liðið því komið með 9 stig samtals, er í 10. sæti eins og er með markatöluna 12:18. Omar Sowe er markahæstur Leiknis með 4 mörk á tímabilinu, Shkelzen Veseli kemur fast á eftir honum með 3 mörk í síðustu þremur leikjum. Róbert Quental er svo með 2 mörk og Róbert Hauksson og Jón Hrafn Barkarson með eitt hvor. Eitt marka Leiknis var sjálfsmark.

Dalvík/Reynir er í 11. sæti deildarinnar með 7 stig og markatöluna 11:17. Þeir unnu ÍBV í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar sem er eini sigur liðsins til þessa. Síðan þá hafa þeir náð jafntefli á heimavelli gegn Fjölni, Gróttu og Keflavík og á útivelli gegn ÍR en tapað gegn Njarðvík, Aftureldingu og Grindavík úti. Í síðustu umferð tapaði Dalvík/Reynir sínum fyrsta heimaleik gegn Þór með þremur mörkum gegn einu.

Írski framherjinn Abdeen Temitope Abdul er markahæstur hjá Dalvík/Reyni með 4 mörk. Tvö þeirra komu í fyrsta leiknum gegn ÍBV og hin tvö í 3:4 tapi gegn Aftureldingu í byrjun júní. Spænski sóknarmaðurinn Amin Guerrero Touiki kemur næstur með 3 mörk, Áki Sölvason hefur skorað 2 mörk en Borja Lopez Laguna og Matheus Bissi La Silva hafa skorað sitt hvort markið.

Leiknir hefur aðeins einu sinni áður mætt Dalvík/Reyni. Það var í upphafi þessa árs þegar liðin mættust í Lengjubikarnum fyrir norðan. Omar Sowe skoraði þá fjögur mörk og Sindri Björnsson eitt í 0:5 sigri. Þessi lið hafa ekki verið saman í deild áður.

En Dalvík/Reynir er heldur ekki mjög gamalt félag í þessari mynd. Liðið varð til árið 2006 þegar Ungmennafélag Reynir, Árskógsströnd og Ungmennafélag Svarfdæla, Dalvík ákváðu að senda inn sameiginlegt lið í knattspyrnu. Karlaliðið hóf leik í 3. deild árið 2006 og er núna að spila í fyrsta skipti í næstefstu deild.

Fyrir það hafði Dalvík verið í samstarfi við Leiftur frá Ólafsfirði í nokkur ár undir merkjunum Leiftur/Dalvík. Það lið var með Leikni í gömlu 2. deildinni (C-deild) bæði 2004 og 2005. Árið 2004 vann Leiknir heimaleikinn 3:0 með mörkum frá Gissuri Jónassoni, Helga Pjetri Jóhannssyni og Jakob Spangsberg Jensen. Seinni leikurinn endaði 1:1 á Dalvík þar sem Haukur Gunnarsson skoraði mark Leiknis en tveir Leiknismenn og einn frá Leiftri/Dalvík fengu rautt í leiknum. Árið 2005 vann Leiknir báðar viðureignir liðanna. Fyrst 0:2 á Dalvík með mörkum frá Pétri Erni Svanssyni og Tómasi Michael Reynissyni. Heimaleikurinn endaði 4:0 með tveimur mörkum frá Jakob Spangsberg auk marka frá Vigfúsi Arnari og Einari Erni Einarssyni. Leiknir vann deildina 2005 á meðan Leiftur/Dalvik endaði í neðsta sæti og ákvað að hætta samstarfinu. Dalvík/Reynir varð til í framhaldinu.

Fyrir allar sameiningar hafði UMFS Dalvík átt sér langa sögu enda stofnað árið 1909. Leiknir og Dalvík voru saman í 2. deild sumarið 1998, þá enduðu báðir leikir liðanna 1:1. Fyrst á Dalvíkurvelli í júli, þá skoraði Daníel Hjaltason mark Leiknis. Síðan á Leiknisvelli í byrjun september þegar Haukur Gunnarsson skoraði fyrir okkar menn. Það jafntefli dugði á endanum Dalvíkingum til að halda 2. sætinu í 2. deild með eins stigs forskot á Leikni í 3. sætinu. Dalvík fór því upp í 1. deild.

Leiknir og Dalvík mættust síðan í deildarbikarnum í upphafi árs 2001. Leikurinn var titlaður heimaleikur Leiknis en fór þó fram í Reykjaneshöllinni og endaði með 0:2 sigri Dalvíkinga.

Leiknir hefur níu sinnum mætt Reyni Sandgerði en mætti aldrei UMF Reyni Árskógsströnd fyrir sameiningu.

Sem fyrr þá hvetjum við Leiknisfólk til að mæta á leikinn og styðja liðið okkar.

Áfram Leiknir!

 

Miðasalan fyrir leikinn er á Stubbi.