Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 26.8.2023, 14 14 30 (1)
Fréttir | 27.08.2023

Afturelding 0-2 Leiknir

Í gær komu okkar menn, sáu og sigruðu í Mosfellsbæ gegn Aftureldingu í miklum ringingaleik. Liðið sem hefur leitt deildina í allt sumar mátti sín ekki mikils gegn Leiknismönnum í góðum ham með Ósvald Jarl fremstan í flokki með fyrirliðabandið í fjarveru Daða Bærings.

Róbert Hauksson skoraði strax á 12. mínútu eftir góðan undirbúning Omars Sowe og það virtist slá gestgjafana nokkuð út af laginu en bæjarhátíðin Í túninu heima fór einmitt fram í gær og átti þessi leikur af vera liður í að byrja skemmtidagskrána. Okkar mönnum fannst ekkert leiðinlegt að spilla því og þrátt fyrir að Leiknismenn í stúkunni og á vellinum hafi verið rennvotir frá fyrstu mínútu, var mikið til að njóta fyrir okkur. 

Það er ekki á hverjum degi sem okkur tekst að halda hreinu, hvað þá gegn langmarkahæsta liði deildarinnar í sumar. Þeir fengu ekki mörg færi en þegar þau komu voru baráttujaxlar á við Ósa klárir í þann slag og skákuðu heimamönnum nánast alls staðar á vellinum. 

Davíð Júlían bætti við marki á 49. mínútu og eftir það var leikurinn kominn algerlega í hendur okkar manna. Síðustu 10 mínúturnar eða svo voru taugatrekkjandi en fyrst heimamenn náðu aldrei sínu fyrsta marki, voru allar áhyggjur óþarfar. Glæsilegur sigur raunin og nú fer draumurinn um að taka þátt í hinu óvinsæla umspili um sæti í Bestudeildinni að færast enn nær okkur. 

#StoltBreiðholts