Fara á efnissvæði
IS EN PL
Daguringihammer Selfoss
Fréttir | 03.07.2025

Baráttuleikur framundan í Breiðholtinu

Fyrsti leikur Leiknis í júlímánuði verður baráttuleikur gegn Fjölni þar sem mikið er undir fyrir bæði lið. Leikurinn hefst kl. 19:15 föstudaginn 4. júlí og dómari leiksins verður Jens Elvar Sævarsson. Þið getið fundið miða á Stubbi.

Leiknir lenti 2:0 undir gegn heimamönnum á Selfossi í síðasta leik en Dagur Ingi Hammer skoraði tvö mörk og náði í eitt stig fyrir Leikni. Á sama tíma mætti Fjölnir Þór og tapaði á heimavelli 0:5.

Fjölnir er í 12. sæti Lengjudeildarinnar með 6 stig eftir 10 leiki og markatöluna 11:24. Eini sigur Fjölnismanna kom í 9. umferð þegar liðið vann 1:4 útisigur á Þrótti. Að auki hafa Fjölnismenn náð jafnteflum gegn Grindavík, Fylki og Njarðvík. Markahæstu leikmenn Fjölnis á tímabilinu eru Árni Steinn Sigursteinsson og Rafael Máni Þrastarson, báðir með 3 mörk.

Leiknir er í 10. sæti deildarinnar með 9 stig. Tveir sigrar, þrjú jafntefli og fimm tapleikir og markatala liðsins er 12:24. Dagur Ingi Hammer skoraði tvö mörk í síðasta leik og er núna einn markahæsti leikmaður deildarinnar með sex mörk, helming marka liðsins. Shkelzen Veseli kemur á eftir honum með tvö mörk.

Fjölnir vann báða leiki liðanna á síðasta tímabili, 1:0 í hvort skipti. Grafarvogsliðið hefur ákveðna yfirburði í sögulegu ljósi í leikjum þessara liða, þau hafa mæst 54 sinnum og 31 leikur hefur endað með sigri Fjölnis. Leiknir hefur unnið 10 leiki en 13 sinnum hafa liðin skilið jöfn. Markatalan í leikjunum 54 er 84:125. Nú er lag að fylla stúkuna, hvetja liðið áfram og hjálpa því að sækja dýrmæt þrjú stig í Lengjudeildarbaráttunni.

 

Áfram Leiknir!

Miðasala, árskort og vefverslun Leiknis er hérna.

 

Mynd: Haukur Gunnarsson fyrir Fótbolta.net