Fara á efnissvæði
IS EN PL
Binni1moreyear
Fréttir | 13.03.2023

Binni Hlö tekur slaginn

Þær gleðifréttir bárust úr Breiðholtinu rétt fyrir helgina að einn dáðasti drengur í sögu félagsins ætlar að taka slaginn með okkur í sumar. Binni Hlö er búinn að festa ráð sitt við Leikni í eitt ár í viðbót hið minnsta.

Samningur Binna rann út um áramótin en hann hélt áfram að æfa með félögum sínum og nú er það loksins skjalfest að okkar maður verður með í baráttunni. 

Það er erfitt að ímynda sér sannan Leiknismann sem þekkir ekki til Binna Hlö og því er frekari kynning óþörf. Þegar Siggi Höskulds kvaddi félagið í haust henti hann því fram að það yrði að smíða styttu af þessum leikmanni fyrir framan Domusnovavöllinn. Það er ekki ofsögum sagt og hefst söfnunin fyrir því líklega um leið og kappinn leggur skóna á hilluna. 

Binni er kominn í 230 leiki í deild og bikar fyrir félagið en hann sparkaði fyrst í bolta fyrir meistaraflokk sumarið 2005. Líklegast þykir að Binni verði í miðverðinum við hlið Andi Hoti og þeir loki markinu með Viktori Frey í allt sumar í Lengjudeildinni. 

Við fögnum því að sjálfsögðu að okkar maður taki slaginn með Stoltinu enn eitt sumarið og það á 50 ára afmæli félagsins, hvorki meira né minna. 

#StoltBreiðholts