Fara á efnissvæði
IS EN PL
Markokick
Fréttir | 03.06.2023

Grótta 5-1 Leiknir

Við fengum aldeilis útreið á Seltjarnanesi í gærkvöld þegar Gróttumenn settu 5 mörk á okkar menn á rétt rúmum 50 mínútum og lokuðu svo búllunni. Þetta var ekki fallegt og erfitt að finna jákvæða punkta í leik okkar manna. Góðu fréttirnar eru sennilega að þetta getur vart versnað og verkefni Fúsa og félaga er núna að breyta leikmannahópnum í grenjandi ljón sem verja heimavöllinn með kjafti og klóm þegar tveir af bestu varnarmönnum félagsins síðustu ár mæta í Holtið á laugardag, klæddir gulu og bláu. 

Binni Hlö skoraði af skalla í stöðunni 2-0 á 31. mínútu en það skein í gegn að ákafalítill varnarleikur liðsins yrði okkur alltaf að falli. Svo einfalt er það. 3. mark heimamanna kom 2 mínútum síðar og nákvæmlega ekkert breyttist í hálfleik. Engar breytingar urðu á leikmannahópnum og það tók Gróttumenn 7 mínútur í seinni hálfleik að skora 2 mörk og endanlega gera útaf við leikinn. 

5. umferð Lengjudeildarinnar lauk um helgina og staðan er einfaldlega sú að Leiknir vermir annað fallsætanna að henni lokinni með verstu vörnina og engin stig úr síðustu 4 leikjum. Það gefur því augaleið að við þjöppum okkur saman og mætum bestu stuðningsmannasveit ársins hingað til, Stinningskalda frá Grindavík, með fulla rödd á laugardaginn þegar Bjarki Aðalsteins, Dagur Austumann og Krissi Konn mæta á svæðið með félögum sínum í leit að auðveldum 3 stigum. Með kjafti og klóm, gott fólk. Með kjafti og klóm! Verjum við stoltið. 

#StoltBreiðholts