Fara á efnissvæði
IS EN PL
Thora Leiknir2024
Fréttir | 19.06.2024

Halló, Akureyri!

Leiknir heimsækir norðurhluta Íslands tvisvar sinnum á rúmlega viku í lok júní. Fyrst fer liðið í Þorpið á Akureyri og mætir þar Þór á VÍS vellinum. Leikurinn hefst klukkan 16:00 laugardaginn 22. júní. Við hvetjum Leiknisfólk sem er á flakki eða í ferðahug til að fjölmenna norður fyrir Glerána og styðja liðið okkar í þessum leik.

Leiknir hefur skorað sjö mörk þar sem af er tímabili. Markahæstu menn eru Omar Sowe og Róbert Quental Árnason með 2 mörk hvor. Róbert Hauksson og Shkelzen Veseli hafa skorað sitt hvort markið auk þess sem eitt var sjálfsmark. Eini sigur Leiknis á tímabilinu þessa kom gegn nágrönnunum í ÍR en helmingur deildarinnar hefur bara unnið einn leik þannig að það er töluvert jafnræði með liðum í neðri helmingi deildarinnar og auðvelt að vinna sig hratt upp töfluna þegar sigrarnir fara að detta inn.

Þór er einmitt líka eitt þessara sex liða með einn sigur á tímabilinu. Þór er í 9. sætinu með 1 sigur, þrjú jafntefli og tvö töp en liðið á inni leik gegn Grindavík sem var frestað. Markatala Þórs í þessum 6 leikjum er 8:11. Þrír leikmenn hafa skorað tvö mörk fyrir Þór í sumar, það eru þeir Birkir Heimisson, Rafael Alexandre Romao Victor og Sigfús Fannar Gunnarsson. Leiknismaðurinn Árni Elvar Árnason hefur skorað eitt mark fyrir Þór og Egill Orri Arnarson sömuleiðis.

Eini sigur Þórs kom í annarri umferð þegar liðið vann Aftureldingu á heimavelli 4:2. Þór hefur gert jafntefli við Þrótt og ÍBV á útivelli og Keflavík á Akureyri. Þeir hafa núna tapað síðustu tveimur leikjum á útivelli, fyrst gegn Njarðvík og síðast gegn Fjölni.

Þjálfari Þórsara er með maður með Leiknishjarta en þar er auðvitað á ferðinni Sigurður Heiðar Höskuldsson.

Leiknir og Þór voru saman í Lengjudeildinni á síðasta tímabili og mættust að auki í Mjólkurbikarnum. Bikarleikurinn var fyrstur, þá mættust liðin í 16-liða úrslitum fyrir norðan 16. maí 2023. Róbert Hauksson skoraði eina mark Leiknis í leiknum á 74. mínútu en áður höfðu Þórsarar skorað tvö og bættu við þriðja markinu undir lok leiks. Fyrri leikurinn í deildinni var líka spilaður á heimavelli Þórs aðeins fjórum dögum síðar, þann 20. maí. Aftur enduðu leikar með sigri heimamanna, að þessu sinni með einu marki sem Valdimar Daði Sævarsson skoraði á 10. mínútu leiksins. En Leiknir vann leikinn í Breiðholtinu í lok júlí með sigurmarki frá Omari Sowe á 5. mínútu í uppbótartíma.

Í dag, 19. júní, eru akkúrat 29 ár frá fyrstu viðureign Leiknis og Þórs. Þá mættust þessi lið á Leiknisvellinum í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Á þeim tíma var Leiknir í þriðju deild en Þór í annarri deildinni. Árni Þór Árnason kom Þór yfir á 73. mínútu en Steindór Jóhannes Elísson jafnaði metin fimm mínútum síðar. Þannig endaði leikurinn eftir framlengingu og þurfti því vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit. Þar fengu Leiknismenn tækifæri til að klára viðureignina en lukkan snerist í lið með Þór og að lokum var það Heiðmar Felixson sem tryggði norðanmönnum sigur. Hann var þarna að spila sinn síðasta leik fyrir Þór í bili en hélt síðan í verkefni með u-18 landsliði Íslands í handknattleik.

Leiknir og Þór hafa þó nokkrum sinnum fylgst að í B- og C-deildum án þess að hafa mæst í efstu deild ennþá. En samtals hafa liði spilað 39 leiki. Leiknir hefur sigrað 6 sinnum, Þór 21 sinni og 12 sinnum hafa leikar endað jafnir. Markatalan í þessum 39 leikjum er 47:80, Þór í vil.

 

Minnum á miðasöluna á Stubbi.

Áfram Leiknir!