Fara á efnissvæði
IS EN PL
Leiknir Throttur2024
Fréttir | 24.06.2024

Höldum áfram af fullum þrótti

Það kom sigur í síðasta leik, gegn Þór fyrir norðan, og það er stutt í næstu leiki. Næsta verkefni er heimaleikur gegn Þrótti. Domusnovavöllurinn, miðvikudaginn 26. júní klukkan 19:15. Bæði lið með 6 stig og við viljum fleiri stig í hús. Þetta verður síðasti heimaleikurinn í júní, það er tilefni til að fjölmenna og styðja liðið okkar.

Eftir 8 leiki er Leiknir með 6 stig úr 2 sigrum og markatöluna 9:17. Omar Sowe er okkar markahæsti leikmaður með 3 mörk en á eftir honum koma Róbert Quental Árnason og Shkelzen Veseli með 2 mörk hvor og Róbert Hauksson er með eitt mark auk þess sem eitt marka Leiknis var sjálfsmark.

Þróttur er einnig með 6 stig eftir 8 leiki, þeir hafa unnið einn leik, gert þrjú jafntefli og tapað fjórum leikjum. Markatala Þróttara er 12:13. Þeirra markahæsti leikmaður er Kári Kristjánsson sem hefur skorað 3 mörk. Jorgen Pettersen hefur skorað 2 mörk en síðan koma 6 leikmenn með eitt mark hver en líkt og Leiknir hefur Þróttur fengið eitt sjálfsmark frá andstæðingum sínum á tímabilinu.

Eini sigur Þróttar á tímabilinu kom í 5. umferð þegar Þróttur vann 5:0 sigur á ÍR í Laugardalnum. Í síðustu þremur leikjum hefur Þróttur gert 1:1 jafntefli við Gróttu og Keflavík á útivöllum og tapaði þess á milli gegn Aftureldingu á heimavelli 1:2.

Leiknir og Þróttur voru saman í Lengjudeildinni á síðasta ári þar sem Leiknir náði að skora þrjú mörk í báðum leikjum liðanna. Fyrri leikurinn var í upphafi tímabils í byrjun maí á AVIS vellinum í Laugardalnum. Leiknir vann þann leik 1:3 með mörkum frá Daníel Finns, Hjalta Sigurðssyni og Omari Sowe. Aron Snær Ingason, núverandi leikmaður Fram í efstu deild, skoraði eina mark Þróttar í þeim leik. Seinni leikurinn var spilaður í Breiðholtinu 20. júlí og hann var fjörugur. Ágúst Karel Magnússon kom Þrótti yfir á 13. mínútu en Omar Sowe jafnaði á 29. mínútu og Daníel Finns kom Leikni yfir á 41. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Aron Snær jafnaði metin á 71. mínútu en Hjalti Sigurðsson skoraði sigurmarkið á 79. mínútu. 

Þessi lið eiga sér langa sögu af leikjum frá því þau mættust fyrst, í fyrstu umferð Mjólkurbikars karla árið 1986. Sá leikur fór fram á Þróttarvellinum og endaði með 5:1 sigri Þróttar. Atli Þór Einarsson skoraði eina mark Leiknis en Sigurður Hallvarðsson skoraði fjögur mörk fyrir Þrótt áður en Benedikt Sigurðsson skoraði fimmta markið.

Þrátt fyrir strembna byrjun hefur Leiknir oftar haft sigur í leikjum gegn Þrótti. Liðin hafa mæst 45 sinnum þar sem Leiknir hefur unnið 24 leiki, Þróttur hefur sigrað 15 sinnum og sex leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan í þessum 45 leikjum er 81:73 fyrir Leikni.

Það væri frábært að sjá fjölmenni í stúkunni og heyra stuðningssöngva óma um Breiðholtið.

Áfram Leiknir!

 

Minnum á miðasöluna - Stubbur

Vefverslun Leiknis er hér