Fara á efnissvæði
IS EN PL
Thora Leiknir2024
Fréttir | 10.07.2025

Laugardagsleikur á Akureyri

Seinni helmingur Lengjudeildarinnar hefst með ferðalagi norður til Akureyrar þar sem Leiknir heimsækir Þór í 12. umferð Lengjudeildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 16:00 laugardaginn 12. júlí og fer fram inni í Boganum. Fyrir það Leiknisfólk sem er statt í nágrenninu eða langar að gera sér sérstaka ferð á leikinn þá er hægt að kaupa miða hérna á Stubbi.

Nú eru ellefu leikir búnir af deildinni og ellefu leikir eftir. Leiknir er í ellefta sæti deildarinnar með 9 stig og markatöluna 12:25. Þór er í sjötta sætinu með 17 stig og markatöluna 26:19. Bæði lið eiga leikmenn sem eru á meðal markahæstu leikmanna deildarinnar, hjá Þór hefur Sigfús Fannar Gunnarsson skorað 8 mörk en Leiknismegin hefur Dagur Ingi Hammer skorað 6 mörk. 

Þessi lið mættust áður í annarri umferð Lengjudeildarinnar á þessu tímabili. Þá skoraði Djorde Vladisavljevic eina mark Leiknis í leiknum en gestirnir frá Akureyri skoruðu fjórum sinnum. Leiknir vann hins vegar báða leiki liðanna á síðasta ári, heimaleikinn 5:1 í ágúst eftir að hafa tekið 1:2 útisigur á VÍS vellinum í júní. Síðast þegar Leiknir mætti Þór fyrir norðan þá skoruðu Shkelzen Veseli og Omar Sowe mörkin sem tryggðu þrjú Leiknisstig. 

Við sendum baráttukveðjur norður með liðinu, vonum að það verði góðmennt af Leiknisfólki í stúkunni og liðinu gangi vel í því verkefni að hefja seinni helming mótsins á góðum nótum. Minnum svo á næsta heimaleik Leiknis sem er gegn Þrótti föstudaginn 18. júlí.

 

Áfram Leiknir!