Fara á efnissvæði
IS EN PL
Fansomar (1)
Fréttir | 24.09.2023

Leik lokið í Lengjudeildinni 2023

Í gær lauk Meistaraflokkur keppni í Íslandsmótinu þetta árið með 3-0 tapi í Mosfellsbæ gegn sterku liði Aftureldingar sem fer áfram á Laugardalsvöll að freista gæfunnar næstu helgi.

Eftir 1-2 tap á Domusnovavellinum í síðustu viku var fjölmennt í Mosó og nauðsynlegt að halda hreinu og freista gæfunnar framávið. Leikurinn fór ágætlega af stað en skemmst er frá því að segja að heimamenn tættu vörn okkar manna í sig á 8 mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleik og þá var vonin orðin veik um að finna 4 mörk, hvað þá 5 til að vinna einvígið. Liðið sem sat mestallt tímabilið í efsta sæti deildarinnar sýndi klærnar aftur og verðskulda, þegar upp er staðið, ferð á þjóðarleikvanginn í leik gegn Vestra um sæti í Bestu deildinni. Til hamingju með það Magnús Már og lærisveinar hans. 

Fyrir félagið okkar getum við litið yfir skemmtilegt og kaflaskipt tímabil þar sem hópurinn tók miklum breytingum frá vonbrigðum síðasta árs og blásið var til sóknar með leikstílinn. Það þurfti ekki að bíða leikjum saman eftir flottum sóknartilburðum og þó varnarleikurinn hafi stundum ekki verið í heimsklassa var aldrei leiðinlegt að horfa á strákana okkar. Ungir og eldri uppaldir Leiknismenn skipuðu lykilhlutverk í liðinu og yljar það væntanlega öllum Breiðhyltingum um hjartarætur að hafa séð svo mörg kunnuleg andlit úr hverfinu á leikskýrslum í hverjum leik. 

Lengjudeildin verður sterk að ári með fullt af skemmtilegum rimmum fyrir okkur að njóta, ekki síst gegn nágrönnum okkar í neðra sem komust upp í deild með okkur loksins aftur. Strákarnir okkar halda áfram að vaxa og dafna í bland við vonandi einhverja nýja og spennandi ættleidda leikmenn eins og gengur og gerist.

En áður en tímabilið er endanlega kvatt, ætlum við að lyfta okkur upp í Leiknishúsi á laugardaginn næstkomandi með góðu djammi með hópnum okkar og verðlaunum þá sem hafa þótt standa sig best ásamt þeim sem hafa náð ákveðnum áföngum á tímabilinu. Við hvetjum alla Breiðhyltinga til að taka kvöldið frá og slást í för með okkur það kvöld. 

#StoltBreiðholts