Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 11.9.2022, 15 42 08
Fréttir | 11.09.2022

Leiknir 1-0 Valur

Sólin skein sem aldrei fyrr á Domusnovavellinum í dag á síðasta leik sumarsins en næsti heimaleikur verður einhvern tíma í október og hægt að fullyrða að þá verði vettlingar og úlpur á áhorfendum. En eftir vonda útreið í Víkinni fyrr í vikunni var ekki von á veislu inni á vellinum.

Annað kom á daginn. Valsmenn mættu í Breiðholtið og fóru tómhentir heim. Það er stutta útgáfan. Sú langa er að okkar menn misstu sjóðheitan og blóðheitan lánsmann frá Danmörku af velli með verðskuldað beint rautt á 20.mínútu og enginn sjéns að halda Patrick Pedersen og félögum frá því að klára leikinn fyrr eða síðar...eða hvað? 

Jújú, vörnin var þétt allan leikinn og Viktor Freyr vel á verði þegar á hann reyndi. Sem fyrr gekk okkar mönnum djöfullega að búa til hættuleg færi en þegar eitt slíkt kom með hlaupi Hjalta inn í teig og sendingu á Davíð Júlían inni í teig, lét kappinn boltann ganga áfram á Birgir Baldvins sem er ósmeykur við að láta vaða og sá setti hann framhjá Fredrik Schram í markinu. 1-0 með 10 mínútur plús uppbót eftir og ótrúlegt svar við afhroðinu í miðvikunni í uppsiglingu. 

Strákarnir stóðu af sér allt sem Hlíðarendamenn hentu í þá og uppskáru ekki bara 3 mikilvæg stig heldur líka von um að öll nótt sé ekki úti enn. Leiknir færðist uppfyrir ÍA á töflunni og getur neglt þá gulklæddu í neðsta sætið með sigri í síðustu umferðinni fyrir umspilið næstu helgi á Skaganum. Sigur þar gæti jafnvel tryggt okkur uppúr fallsæti fyrir umspilið en þó er staðfest að það eru aðeins 2 af 5 leikjum þar á Domusnovavellinum í ofsalegum október. 

Nú fjölmennum við á Akranes á laugardag og sköpum ógleymanlega stemningu kringum strákana. 3 stig þar gætu klárlega skipt sköpum þegar talið er úr pokanum í lok október. 

#StoltBreiðholts