Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 9.9.2023, 15 44 48
Fréttir | 09.09.2023

Leiknir 1-2 Fjölnir

Síðasti heimaleikur venjulegs leiktímabils í Lengjudeildinni fór fram í dag á Domusnovavellinum þegar Fjölnismenn mættu í heimsókn og tóku stigin þrjú í kaflaskiptum en skemmtilegum leik.

Uppröðunin í úrslitakeppnina sem framundan er var nánast ráðin fyrir leik og því kannski ekki hægt að segja að mikið hafi verið undir en auðvitað vilja menn verja heimavöllinn og koma í sem bestu leikformi inn í úrslitakeppnina nýju. 

Leikmenn Leiknis léku með sorgarbönd eftir að Ólafur Garðarsson, einn allra mesti Leiknismaður sem uppi hefur verið, varð bráðkvaddur í síðustu viku. Einnig var klappað í mínútu honum til heiðurs áður en flautað var á leikinn. Blessuð sé minning Ólafs. 

Okkar menn hófu leikinn af krafti og lágu á gestunum fyrstu 10 mínúturnar eða svo án þess að ná að ógna markinu af hörku. Þeir gulklæddu úr Grafarvoginum tóku svo frumkvæðið í náðu að skora eftir hornspyrnu á 17. mínútu. Markið skoraði Sigurvin Reynisson. 

Á 34. mínútu voru okkar menn aftur komnir vel inn í leikinn og Davíð Júlían náði að skora í annarri tilraun á 34. mínútu með harðfylgi í gegnum varnarmúr Fjölnismanna. Gestirnir náðu svo forystunni aftur rétt fyrir leikhlé með þrumuskoti frá Axel Frey Harðarsyni. 

Í seinni hálfleik fóru bæði liðin illa með góð færi en baráttan var alltaf til staðar þó að pressan á að ná ákveðnum úrslitum hafi kannski ekki verið mikil. Fjölnismenn hirða því stigin 3 og halda sínu 3. sæti í deildinni og að sama skapi erum við Leiknismenn staðfestir í 5. sæti burtséð frá úrslitum í síðasta leik tímabilsins í Þorlákshöfn næstu helgi. Líklegasti andstæðingur okkar í undanúrslitum um sæti efstu deild verður Afturelding en enn er möguleiki á að Skagamenn mæti í þeirra stað eftir síðustu umferðina. 

#StoltBreiðholts