Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 24.4.2022, 16 11 11 (1)
Fréttir | 24.07.2022

LEIKNIR 1-4 ÍBV

Við finnum okkur aftur í fallsæti eftir lélega frammistöðu og vont tap á heimavelli gegn Eyjamönnum í dag. Það er ekkert hægt að sykurhúða það enda næsti leikur gegn Íslandsmeisturum Víkings á útivelli og tækifærin til að sýna sitt rétta andlit fer fækkandi.

Öllum var ljóst að um var að ræða amk 6 stiga leik á Domusnovavellinum og mikilvægt fyrir okkar menn að hrista af sér vont tap gegn gulu grýlunni á sama velli síðustu helgi. Því var ekki að fagna. Strákarnir okkar urðu undir á öllum vígstöðvum nánast frá fyrstu mínútu og gestirnir komnir í 0-2 forrystu rétt áður en flautað var til hálfleiks, verðskuldað. 

Siggi var klárlega sama sinnis enda gerði hann líklegast sína fyrstu 4 manna skiptingu á ferlinum í hálfleik og virtist það hafa góð áhrif því Birgir Baldvins hafði skorað 12 sekúndum eftir að flautað var aftur til leiks. En gamanið kárnaði svo aftur þegar Eyjamenn bættu sínu 3. marki við 6 mínútum síðar og Siggi henti í sína 5. og síðustu skiptingu stuttu síðar.

Eyjamenn bættu svo við 4. markinu sínu af vítapunktinum áður en Bjarki fyrirliði þurfti að fara af leikvelli og okkar menn þvi að spila leikinn út manni færri. Það er ekki mikið að marka hvernig andstæðingurinn "leyfir" þér að spila þegar leikurinn er unninn hvað þá varðar og því skulum við ekki skreyta okkur með stórum yfirlýsingum um frammistöðuna manni færri í tapaðri stöðu. Staðreyndin stendur eftir að þetta var mjög vont tap, verðskuldað, gegn mikilvægum andstæðingi í fallbaráttunni og nú sitja okkar menn í marineringu í 10 daga naflaskoðun áður en heimavöllur hamingjunnar er heimsóttur með veika von um jákvæð úrslit ef rýnt er í staðinn sem liðið virðist vera á akkúrat núna. 

Nú, sem aldrei fyrr, þurfum við að fylkja okkur bakvið strákana okkar og stappa í þá stálinu áður en botnsætið verður okkar heimili. 

#StoltBreiðholts 

#HverfiðKallar