Fara á efnissvæði
IS EN PL
Fréttir | 10.07.2024

Leiknir fær toppliðið í heimsókn

Nú hafa öll lið í Lengjudeildinni mæst einu sinni á þessu tímabili og komið að því að taka seinni viðureignirnar. Eftir ellefu umferðir er Fjölnir í toppsæti deildarinnar á meðan Leiknir er í 10. sætinu. Fjölnir kemur á Domusnovavöllinn annað kvöld, fimmtudaginn 11. júlí, og hefst leikurinn klukkan 19:15. Fjölnir er á mjög góðu skriði og hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu en okkar menn hafa verið að sýna flottar frammistöður síðustu vikur. Fylkjum liði á völlinn og hvetjum liðið okkar áfram í þessum stórleik.

Fjölnir hefur unnið sjö leiki, gert þrjú jafntefli og eins og áður sagði aðeins tapað einum leik. Eina tap Fjölnis kom síðast þegar Fjölnir heimsótti Breiðholtið, þegar liðið tapaði 3:1 fyrir ÍR í áttundu umferð. Jafnteflin þrjú voru markalaust jafntefli við Dalvík/Reyni á útivelli í 3. umferð, 2:2 jafntefli við ÍBV í Vestmannaeyjum í 5. umferð og svo 0:0 jafntefli við Keflavík á heimavelli Fjölnis í síðasta leik.

Fyrir utan þessi tvö markalausu jafntefli hefur Fjölnir skorað í öllum hinum leikjum tímabilsins, markatalan þeirra er 21:12. Tvö lið (ÍBV og Njarðvík) hafa skorað fleiri mörk í deildinni en Fjölnir hefur fengið fæst mörk á sig til þessa. Við Leiknisfólk þekkjum vel til helsta markaskorara Fjölnismanna sem er Máni Austmann Hilmarsson. Þessi fyrrum Leiknismaður er kominn með 7 mörk í 10 leikjum á tímabilinu og er markahæstur í deildinni. Þrjú þeirra hafa komið úr vítum en það þarf að skora úr þeim líka. Hann skoraði meðal annars þrennu á átta mínútum í 5:2 sigri á Gróttu í lok júní sem er ansi mikið afrek. Axel Freyr Harðarson og Dagur Ingi Axelsson hafa báðir skorað þrjú mörk fyrir Fjölni, Guðmundur Karl Guðmundsson tvö og sex leikmenn eru með eitt mark hver.

Leiknir er með 12 stig eftir 11 leiki. Fjórir sigrar, sjö töp og eina liðið sem á enn eftir að gera jafntefli í deildinni. Markatala Leiknis er 13:19 en við erum sannfærð um að það standi allt til bóta, bæði stiga- og markasöfnun. Markahæsti leikmaðurinn okkar er hinn frábæri Omar Sowe sem hefur skorað fimm mörk. Shkelzen Veseli kemur þar á eftir með þrjú mörk en hann hefur verið sérstaklega sprækur fyrir framan mörk andstæðingana í síðustu leikjum. Róbert Quental Árnason er með tvö mörk og þeir Jón Hrafn og Róbert Hauks með eitt mark hvor. 

Leiknir og Fjölnir mættust síðast í annarri umferð Lengjudeildarinnar í ár. Þá spiluðu liðin í Egilshöll í nokkuð daufum leik sem Fjölnir vann með einu marki gegn engu. Við reiknum með að þessi leikur verði skemmtilegri fyrir áhorfendur.

Liðin voru fyrst saman í 2. deildinni (C-deild) sumarið 1997. Fyrri leikurinn var spilaður á Leiknisvellinum í byrjun júní en endaði 0:0. Seinni leikurinn var spilaður í byrjun ágúst á Fjölnisvelli og þann leik vann Leiknir 1:4. Mörk Leiknis í þeim leik skoruðu Heiðar Ómarsson, Birgir Ólafsson, Óskar Alfreðsson og Guðjón Ingason en Halldór Steinsson skoraði eina mark Fjölnis. Í lok sumars endaði Leiknir í fimmta sæti deildarinnar en Fjölnir í áttunda sæti af tíu liðum.

Alls hafa þessi lið spilað 52 leiki í meistaraflokki karla. Leiknir hefur sigrað tíu sinnum, Fjölnir hefur unnið 30 leiki og tólf sinnum hafa leikar endað með jafntefli. Markatalan í leikjunum er 82:122, Fjölni í hag.

Fjölnir hefur haft ákveðin tök á Leikni síðustu ár en við trúum að okkar menn geti snúið því við í þessum leik. Áfram Leiknir!

Miðasalan er á Stubbi.