Fara á efnissvæði
IS EN PL
Inshot 20220513 211527052
Fréttir | 13.05.2022

RISALEIKUR Á MÁNUDAGSKVÖLD

Á mánudagskvöld verður blásið til allsherjarveislu á Domusnovavellinum og keyrt partýtjaldið í gang. Vonandi fylgir gengið á vellinum því eftir. Það er spáð 13 gráðu hita og 2 metrum á sekúndu með nánast engar líkur á rigningu. Semsagt, eins gott og það getur gerst á maíkvöldi. 

Það dylst engum að byrjun tímabilsins í Bestu deildinni hefur verið vonbrigði fyrir alla og því finnum við okkur í kjallara deildarinnar fyrir ofan botnsætið á engu nema markatölunni. Botnliðið Fram er einmitt í heimsókn á mánudaginn og hugsa þeir sér líklega gott til glóðarinnar eftir úrslitin í Keflavík. 

Þetta er næstsíðasti heimaleikur fyrir júlíbyrjun og strákunum okkar veitir ekki af jákvæðum straumum úr stúkunni, hólnum og bakvið skiltin. Það er bara þannig sem við snúum öll genginu við og gerum Domusnovavöllinn að því vígi sem hann var í fyrra. 

Tjaldið við völlinn verður vígt á mánudag með dúndrandi tónlist, köldum drykkjum og sú nýjung verður á boðstólnum að svangir gestir geta nú gengið að meðlætisborði í tjaldinu til að ákveða sjálfir hvað þeir setja á borgara sína og pylsur. Bestu borgarar landsins verða á Domusnova því allir geta sett þá saman eftir eigin smekk.

Að venju kíkir Siggi Hö til stuðningsmanna rúmlega klukkutíma fyrir leik eða 18:00 og fer yfir leikplanið og byrjunarlið kvöldsins.

Leikurinn rúllar svo af stað 19:15 og í hálfleik verður 4. meðlimur Heiðurshallar Leiknis vígður uppá vegginn góða. 

Þið viljið ekki missa af þessu og biðlum við til ykkar allra, kæra Leiknisfólk að láta sjá ykkur með góða skapið og hjálpa okkur að snúa taflinu við á vellinum okkar. Ef þú kemur á völlinn á einn leik í ár, þá máttu endilega láta það vera þennan! 

Þið megið endilega melda ykkur á viðburðinn á Facebook og bjóða öllum sem ykkur dettur í hug! 

Sjáumst á mánudagskvöld! 

#HverfiðKallar

#StoltBreiðholts