Fara á efnissvæði
IS EN PL
Leiknishusið
Fréttir | 28.07.2025

Þriðjudagsleikur gegn Keflavík

Leiknir tapaði naumlega í Kórnum í síðustu umferð en nú er komið að lokaleik júlímánaðar hjá strákunum okkar þegar Keflavík mætir í heimsókn. Gunnar Freyr Róbertsson dæmir leikinn sem hefst klukkan 19:15 á Domusnovavellinum, þriðjudaginn 29. júlí. Sem fyrr er hægt að kaupa miða á Stubbi, hérna er tengill á miðasöluna.

Fyrir leikinn gegn HK tilkynnti Leiknir um komu nýs leikmanns þegar varnarmaðurinn Adam Örn Arnarson samdi við félagið

Keflavík er í sjötta sæti Lengjudeildarinnar með 22 stig og markatöluna 32:24. Keflavík og ÍR gerðu markalaust jafntefli í 9. umferðinni en síðan þá hafa leikir Keflavíkur verið miklir markaleikir, 32 mörk skoruð í sex leikjum eða 5,3 mörk í leik að meðaltali. Keflavík gerði 2:2 jafntefli við Þór í síðasta leik en vann Fjölni 5:4 í dramatískum markaleik þar á undan. Kári Sigfússon er markahæstur hjá Keflvíkingum með 6 mörk á tímabilinu, Gabríel Aron Sævarsson og Marin Mudrazija hafa báðir skorað 4 mörk, Muhamed Alghoul er með 3 mörk, Ari Steinn Guðmundsson og Eiður Orri Ragnarsson 2 mörk hvor og síðan koma 9 leikmenn með eitt mark hver. Þar með er þó ekki allt upptalið því tvö marka Keflavíkur í sumar voru sjálfsmörk andstæðinga.

Leiknir er í 12. sæti deildarinnar, með 10 stig og markatöluna 13:29. Dagur Ingi Hammer er sem fyrr markahæsti leikmaður liðsins með sex mörk, Shkelzen Veseli kemur á eftir honum með þrjú mörk.

Nú er júlí að klárast og við tekur ágústmánuður með fimm leikjum til viðbótar í Lengjudeildinni. Það fer að styttast í annan endann á þessu tímabili og hver leikur skiptir miklu máli í þessari baráttu. Stuðningur og hvatning skiptir máli, stöndum öll saman í þessu og klárum sumarið með stæl.

 

Áfram Leiknir!