Fara á efnissvæði
IS EN PL
IBV Leiknir2024
Fréttir | 05.07.2024

Vestmannaeyjar í næsta leik

Þegar Leiknir hefur spilað tíu leiki í Lengjudeildinni á tímabilinu þá er liðið í 7. sæti og á næst leik gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Þessi laugardagsleikur á Hásteinsvelli hefst klukkan 15:15. Það er alltaf tekið vel á móti Leiknisfólki í Vestmannaeyjum svo það er vonandi að liðið okkar fái góðan stuðning á þessum útivelli. En fyrir þau ykkar sem náið ekki að fara til Vestmannaeyja þá verður bein útsending frá leiknum á YouTube-síðu Lengjudeildarinnar.

Bæði Leiknir og ÍBV hafa unnið 4 leiki í deildinni í sumar. Leiknir er með 12 stig í 7. sæti og markatöluna 13:18, ÍBV er með 16 stig í 3. sætinu og markatöluna 22:13. Til viðbótar við 4 sigra hefur ÍBV líka gert 4 jafntefli og aðeins tapað 2 leikjum til þessa á tímabilinu. Tapleikirnir komu gegn Dalvík/Reyni í fyrstu umferð og Grindavík í næstsíðustu umferð, báðir á útivelli. Í síðasta leik vann ÍBV Keflavík á heimavelli með fimm mörkum gegn engu.

Markahæstur hjá Leikni á tímabilinu er Omar Sowe með 5 mörk. Shkelzen Veseli kemur þar á eftir með 3 mörk, Róbert Quental Árnason með 2, Jón Hrafn Barkarson og Róbert Hauksson hafa skorað 1 mark hvor og eitt var sjálfsmark. ÍBV á einn af þeim sem eru í hópi næstmarkahæstu leikmanna Lengjudeildarinnar í Oliver Heiðarssyni sem hefur skorað 6 mörk í 9 leikjum auk þess að fá eitt rautt spjald og þrjú gul. Sverrir Páll Hjaltested hefur skorað 3 mörk og svo koma fjórir leikmenn með tvö mörk: Arnar Breki Gunnarsson, Hermann Þór Ragnarsson, Vicente Rafael Valor Martínez og Víðir Þorvarðarson. Fimm leikmenn hafa síðan skorað eitt mark hver: Bjarki Björn Gunnarsson, Guðjón Ernir Hrafnkelsson, Jón Ingason, Nökkvi Már Nökkvason og Sigurður Arnar Magnússon.

Leiknir og ÍBV áttust síðast við í Lengjubikarnum í upphafi árs 2023. Leikurinn var spilaður í Breiðholtinu en endaði með 0:2 sigri ÍBV. Áður höfðu liðin verið saman í Bestu deildinni sumarið 2022. Fyrri leikurinn í hefðbundnu deildarkeppninni var spilaður í Vestmannaeyjum í upphafi maímánaðar og endaði með 1:1 jafntefli. Andri Rúnar Bjarnason kom heimamönnum yfir á 26. mínútu en Leiknir jafnaði 3 mínútum síðar með sjálfsmarki frá Eiði Aroni Sigurbjörnssyni. Seinni leikurinn í deildinni endaði 1:4 í Breiðholtinu. Þá skoraði Birgir Baldvinsson eina mark Leiknis. Bæði lið fóru í neðri hlutann í seinni helmingi deildarinnar og áttust við í lokaumferðinni í Vestmanneyjum í lok október 2022. Arnar Breki Gunnarsson skoraði eina mark leiksins undir lok hans og tryggði ÍBV 1:0 sigur.

En fyrsti leikur liðanna fór fram 35 árum fyrr, þann 1. júlí 1987. Þá áttust liðin við í Mjólkurbikarnum á Leiknisvelli. Á þeim tíma var Leiknir í 3. deild en ÍBV í 2. deild. Staðan í hálfleik var 1:1 en gestirnir úr Vestmannaeyjum náðu á endanum að sigra 2:4. Atli Þór Þorvaldsson og Baldur Baldursson skoruðu fyrir Leikni í þessum leik. Næstu tveir leikir á milli Leiknis og ÍBV voru líka bikarleikir í Breiðholtinu. Fyrst 1997 og svo 1999. Í bæði skiptin unnu ÍBV. 

Leiknir fór í fyrsta skipti til Vestmannaeyja til að spila við ÍBV 2007. Þá voru liðin saman í næst efstu deild. Bjarni Rúnar Einarsson kom ÍBV yfir en Vigfús Arnar Jósefsson sneri leiknum í Leiknissigur með tveimur mörkum úr vítum í lok hvors hálfleiks.

Leiknir og ÍBV hafa mæst 19 sinnum í gegnum tíðina. Leiknir hefur unnið fjóra leiki, ÍBV hefur sigrað tólf sinnum og þrír leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan á milli liðanna er 23:41 í þessum 19 leikjum. Þetta verður án efa hörku leikur.

 

Við minnum á að miðasalan fyrir leikinn er á Stubb. Áfram Leiknir!