Fara á efnissvæði
IS EN PL
Viktorploty2022
Fréttir | 30.10.2022

Viktor Freyr Leikmaður Ársins 2022

Í gær var haldið lokahóf Leiknis fyrir árið 2022 í Austurbergi 1. Val á Leikmanni Ársins að mati stuðningsmanna var kunngert ásamt því að besti og efnilegasti leikmaðurinn samkvæmt klefanum var tilkynntur. Hið bráðskemmtilega Lokahófsmyndband kom svo til baka við mikinn fögnuð félagsmanna. Það er óhætt að segja að þrátt fyrir að árangurinn á vellinum hafi verið undir væntingum í sumar er hugur í öllum innan félagsins og þökkum við öllum sem komu í hús fyrir að deila kvöldinu með okkur.

Stuðningsmannakosninginn á Leikmanni Ársins lauk með því að Viktor Freyr Sigurðsson, hinn ungi markvörður liðsins var valinn í þeim flokki. Það muna eflaust flestir eftir því að þegar tímabilið hófst höfðu margir áhyggjur af því að þessi ungi leikmaður með innan við handfylli af leikjum í meistaraflokki gæti tekið við keflinu af Guy Smit en það koma á daginn að Viktor var minnsta vandamálið í liðinu og átti nokkra virkilega góða leiki þó að mörkum hafi á tíðum lekið fullglatt inn. Það dylst engum eftir þetta sumar að Viktor Freyr er okkar maður milli stangana og með framtíðina fyrir sér er hægt að hafa áhyggjur af allt öðrum stöðum á vellinum en þessum nú þegar framundan er endurbygging í Breiðholtinu. Til hamingju með stóra bikarinn Viktor Freyr. 

Þjálfarateymið tilkynnti einnig val búningsklefans á sínum besta manni og varð bolabíturinn á miðjunni, Emil Berger, þar fyrir valinu. Ljóst er að mikið hefur verið reitt sig á kappann í klefanum og hefur hann verið vandanum vaxinn. Grattis Emil!

Einnig fékk Davíð Júlían Jónsson viðurkenningu úr klefanum sem efnilegasti ungi leikmaður hópsins. Eftir að hafa byrjað tímabilið á láni hjá Þrótti Vogum og fengið takmörkuð tækifæri þar, snéri hann heim í glugganum og festi sig í sessi undir lok tímabils í Bestu deildinni. Framtíðarmaður þar á ferð. Til hamingju með þetta Davíð Júlían. 

#StoltBreiðholts